Alþjóðleg fjármögnun hefur verið tryggð á uppsetningu FlyOver Iceland sem er afþreyingarverkefni sem gengur út á að sýna íslenska náttúru í sýningarsal með ýmsum tæknibrellum. Sérhönnuð 2.000 fermetra bygging verður reist fyrir verkefnið og háþróaðri kvikmynda- og sýningartækni er beitt til að veita gestum tækifæri til að svífa yfir landslag og margar af helstu náttúruperlum Íslands. Sýningin verður staðsett við Fiskislóð og er stefnt að opnun hennar árið 2019.

FlyOver Iceland fer þannig fram að gestir sýningarinnar sitja í sætisbeltum í stórri sýningarhvelfingu og stólarnir hreyfast í takti við hreyfingar myndarinnar. Sérstakar tæknibrellur á borð við vind, lykt, þoku og raka auka enn frekar á upplifunina.

Íslenska afþreyingarfyrirtækið Esja Attractions ehf. hefur unnið að undirbúningi verkefnisins um tveggja ára skeið. Viad Corp, sem skráð er í kauphöllina í New York, hefur tilkynnt um kaup á meirihluta hlutafjár í Esju.  Viad hefur fjárfest í ýmsum tækifærum til framandi, ævintýralegrar og ógleymanlegrar upplifunar í ferðaþjónustu í Norður Ameríku. Þar á meðal er FlyOver Canada í Vancouver sem rekið er af sérstakri rekstrareiningu innan Viad, Pursuit.

„Kaup okkar á FlyOver Canada í desember 2016 hafa reynst afar árangursrík með góðri framlegð og arðgreiðslum“, segir Steve Moster, forstjóri Viad Corp í fréttatilkynningu frá FlyOver Iceland.  „Við erum mjög spennt fyrir því að útfæra þessa hugmynd á nýjum og stórkostlegum mörkuðum. Reykjavík er tilvalinn staður fyrir FlyOver sýninguna þar sem fjöldi ferðamanna á Íslandi vex stöðugt og er áætlaður um 2,7 milljónir árið 2019. Við væntum þess að ávöxtun þessarar fjárfestingar verði umfram það 15% arðsemismarkmið sem Viad setur sér sem lágmarksviðmið í langtímafjárfestingum sínum.“

Þá er einnig haft eftir Sigurgeir Guðlaugssyni stjórnarformanni Esju að fjárfestingin sé mikil viðurkenning. „Fjárfesting Viad Corp er mikil viðurkenning á því starfi sem unnið hefur verið sl. tvö ár við undirbúning verkefnisins,“ segir Sigurgeir. „Við munum bjóða gestum okkar að upplifa ýmsar af stórkostlegustu náttúruperlum landsins á máta sem aldrei hefur boðist fyrr.  Við erum sannfærð um að FlyOver Iceland muni skipa sér á bekk  með vinsælustu viðkomustöðum í Reykjavík og hlökkum til að leggja okkar af mörkum til áframhaldandi vaxtar í íslenskri ferðaþjónustu.“