Öllum dómsmálum er varða endurútreikning og uppgjör á lánum verður flýtt í gegnum dómskerfið samkvæmt frumvarpi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Frumvarpið verður lagt fram á sumarþinginu. Þetta kemur fram á forsíðu Morgunblaðsins í dag þar sem segir að þegar sé búið að samþykkja málið í ríkisstjórn.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir standa til að fella niður hækkun á virðisaukaskatti á gistingu auk þess sem skoðuð séu ýmis önnur gjöld og skattar sem lögð hafa verið á á síðustu árum. Á fundi ríkisstjórnarinnar í gær voru kynnt drög að þingsályktunartillögu um skuldamál heimilanna sem forsætisráðherra ætlar að verði lögð fram á mánudag.