*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 5. maí 2021 14:02

Flýta flugi til Íslands

Flugfélagið Jet2.com og Jet2CityBreaks flýtir um mánuð áætlunum sínum um flug og borgarferðir frá Manchester til Íslands.

Ritstjórn
epa

Breska flugfélagið Jet2.com og Jet2CityBreaks hefur ákveðið að flýta um mánuð áætlunum sínum um flug og borgarferðir frá Manchester á Englandi til Íslands. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu en þar segir að þetta sé gert vegna mikillar eftirspurnar eftir ferðum til Íslands og væntinga um að Ísland verði skilgreint sem grænt land á lista breskra stjórnvalda þegar áformað er að aflétta banni á ónauðsynleg ferðalög frá Bretlandi um miðjan maímánuð. 

Auk ferða til Manchester verði einnig boðið upp á reglulegt flug og borgarferðir frá Birmingham. Flogið verði tvisvar í viku milli borganna, á mánudögum og fimmtudögum.

Manchester-flugið hefst 2. september og Birmingham-flugið 30. september. Flogið verður til 22. nóvember 2021. Þá hefst Manchester-flug að nýju 10. febrúar og stendur til 10. nóvember 2022. Flogið verður til og frá Birmingham frá 10. febrúar til 25. apríl 2022. 

„Hægt verður að kaupa stakt flugfar með Jet2.com eða pakkaferð til Íslands með Jet2City Breaks. Þannig er komið til móts við eftirspurn í Bretlandi eftir ferðum til Íslands og bættar tengingar til Birmingham og Manchester fyrir Íslendinga. 

Félagið ætlar einnig að bjóða upp á 37 pakkaferðir á tímabilinu frá sjö öðrum flugvöllum á Bretlandseyjum - frá Belfast-flugvelli, East-Midlands-flugvelli í Derby, Leeds-Bradford-flugvelli, Glasgow, Edinborg, Newcastle og London Stansted,“ segir í fréttatilkynningu. 

Jet2.com og Jet2CityBreaks hófu flug til Íslands árið 2019. Steve Heapy, forstjóri Jet2.com og Jet2holidays, segir í tilkynningunni að mikil eftirspurn sé eftir flugi til Íslands. Það sé búist við því að Ísland verði á lista breskra stjórnvalda yfir græn lönd vegna Covid-19. „Þegar vissa er fyrir hendi um aðgerðir í faraldrinum eru fjöldamargir viðskiptavinir tilbúnir að bóka flug." 

„Við á Keflavíkurflugvelli erum afar ánægð að heyra að Jet2.com og Jet2CityBreaks hafi ákveðið að bæta við áætlun sína og fögnum áframhaldandi góðu samstarfi við félagið," segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia í fréttatilkynningu. „Við sjáum að það er sívaxandi áhugi á Íslandi sem áfangastað eftir að heimsfaraldrinum er lokið og þessi ákvörðun staðfestir þau merki sem við höfum séð um það."

Stikkorð: Bretland Ísland flug Jet2.com Jet2CityBreaks