Helstu fréttirnar varðandi skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar er að aðgerðinni var flýtt. Klára á uppgjörið á rúmu einu ári í stað fjögurra. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.  Í heildina kostar aðgerðin 80 milljarða króna og ákvörðunin um að flýta henni þýðir að 40 milljarðar verða gerðir upp í lok þessa árs, 20 milljarðar í ársbyrjun 2015 og 20 milljarðar í ársbyrjun 2016.

„Nú vaknar sú spurning hvernig þessi flýting verður fjármögnuð þar sem sérstakur bankaskattur sem var settur á til að fjármagna skuldaleiðréttinguna skilar einungis um 23 ma.kr. í ríkiskassann á þessu ári. Þar af átti að ráðstafa 20 ma.kr. til niðurfærslu skulda og vantar því 20 ma.kr. á þessu ári til að fjármagna lækkun skulda fyrir áramót."

Stutta svarið virðist vera að bætt afkoma ríkissjóðs leyfi að framkvæmd aðgerðarinnar sé flýtt án þess að til komi frekari skuldsetning ríkissjóðs. Það er í samræmi við orð fjármála- og efnahagsráðherra í gær. Engu að síður verður afleiðingin sú að lánsfjárjöfnuður ríkisins verður lakari á þessu ári en annars hefði orðið. Það þýðir að svigrúm ríkissjóðs til að greiða niður skuldir lækkar sem því nemur.

Ef horft er á lykiltölur fjáraukalagafrumvarpsins er afkoma ríkissjóðs í ár um 43,8 ma.kr. í stað 0,9 ma.kr. eins og gert var ráð fyrir í fjárlögum 2014. Afkomubatinn skýrist þó nánast að öllu leyti af óreglulegum tekjufærslum.

Í fyrsta lagi er um að ræða tekjufærslu vegna áformaðrar lækkunar á skuldabréfi ríkissjóðs við Seðlabankann. Þá færast um 26 ma.kr. á tekjuhliðina sem arðgreiðsla en á móti kemur jafn mikil afborgun inn á skuldina.

Í öðru lagi nema arðgreiðslur fjármálafyrirtækja 19,5 ma.kr. umfram forsendur fjárlaga og vegur þar þyngst arðgreiðsla Landsbankans.

Í þriðja lagi er fjármagnstekjuskattur 2,8 ma.kr. umfram fyrri forsendur en sú breyting færist einnig á gjaldahliðina.

Á útgjaldahliðini falla til 6,1 ma.kr. vegna óreglulegra útgjalda umfram forsendur fjárlaga 2014 og vegur þar þyngst 4,8 ma.kr. aukin útgjöld vegna lífeyrisskuldbindinga. Að frádregnum framangreindum óreglulegum liðum er því undirliggjandi afkomubati einungis um 1,7 ma.kr.

Líklegast er að breyta þurfi fjáraukalögum við 2. umræðu á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir 40 ma.kr. útgjöldum vegna skuldaleiðréttingarinnar í stað 20 ma.kr. Heildarafkoman yrði þá um 23,7 ma.kr. í stað 43,8 ma.kr."

Mat greiningareildarinnar er að framkvæmd skuldalækkunarinnar virðist ekki beintengd við innheimtu á sérstökum bankaskatti eins og áður var áætlað.

„Bankaskatturinn var hækkaður til að standa undir leiðréttingunni á fjórum árum. Í ljósi þess að vænst er mikilvægra skrefa við afnám hafta fyrir áramót er eðlilegt að spurt sé hvort skattur sem að mestu leyti er greiddur úr þrotabúum föllnu bankanna muni í raun falla til með jöfnum hætti á næstu fjórum árum. Það er freistandi að ætla að fljótari uppgreiðslur ríkissjóðs á skuldum heimila tengist væntingum um að ríkissjóður sjái að tekjur frá þrotabúunum skila sér fyrr en áður og komi þar með til móts við hraðari uppgreiðslur vegna skuldalækkunarinnar.

Það má því segja að flýting skuldaleiðréttingarinna veki upp ýmsar spurningar sem snerta ríkisfjármálin og liggur ekki fyrir um þessar mundir hver endanleg áhrif verða á afkomu eða lántöku ríkissjóðs á þessu ári," segir í markaðspunktum Arion banka.