Flutningsmiðlunin North Atlantic Cargo Line (NAC-Line) og Einstök Ölgerð hafa undirritað samkomulag um að NAC-Line annist alla flutninga og dreifingu á verðlaunabjór fyrirtækisins, Einstök til Bandaríkjanna, Evrópu og Asíu að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

„Við erum afar ánægð með þennan samstarfssamning við NAC-Line sem hefur öflugt flutninganet og sérþekkingu á þessum flutningum. Einstök ölgerð er með rúmlega 80% af öllu útfluttu áfengi frá Íslandi. Það hefur verið talsverður vöxtur á fyrirtækinu og útflutningi þess sem þýðir að við höfum þurft að styrkja stoðirnar enn frekar og efla ýmsa þætti í þjónustu við viðskiptavini okkar. Öflugra flutninga- og dreifinet er það sem við finnum hjá NAC-Line sem er mikill fengur fyrir okkur,“ segir Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Einstök Ölgerð.

„Við gerum ráð fyrir að magnið næstu 12 mánuði fari yfir 4 milljónir bjórflaskna, sem er haugur af gámum," segir Ólafur Matthiasson,“ framkvæmdarstjóri hjá NAC-Line. „Við erum afskaplega stolt og þakklát yfir því að hafa verið valin til að sinna þessu krefjandi verkefni en nýlegt samstarf okkar við TVG-Zimsen gerði okkur þetta kleift."

Ólafur segir að frá höfuðstöðvum NAC-Line í Norfolk í Virginiu sé nú boðið upp á vikulegar safnsendingar til Íslands sem og heilgáma sendingar til og frá öllum helstu borgum Bandaríkjana. ,,Í samstarfi við TVG-Zimsen erum við að koma með á markaðinn mjög einfalt og öflugt flutningakerfi milli landana sem mörg fyrirtæki eru þegar farin að nýta sér, segir Ólafur að lokum.