Björg Kjartansdóttir og Gunnar Svanberg Skúlason stofnuðu á dögunum fyrirtækið EPIC island. Þau flytja inn surfski-báta, sem eru líkir hefðbundnum kajökum en henta betur í miklum öldugangi. Björg og Gunnar eru bæði vanir ræðarar og í samtali við Viðskiptablaðið segir Björg að þau hafi byrjað að flytja inn og selja bátana af einskærri áhugamennsku og ástríðu.

Björg og Gunnar eru komin í samstarf við Epic Kayaks, sem er einn stærsti framleiðandi surfski-báta í heiminum. Fyrsti gámurinn er á leið til landsins og hafa þau nú þegar selt á annan tug báta.

Gerðir fyrir öldurnar

Surfski-bátar eru mjórri og lengri en hefðbundnir kajakar. Helsti munurinn á surfski-bátum og hefðbundnum sjókajökum er þó að surfski-bátar eru opnir, sem þýðir að ef maður lendir í vanda er mun auðveldara að komast upp í bátinn aftur heldur en hefðbundinn kajak. Það veldur því einnig að sjórinn á greiðari leið að manni heldur en í hefðbundnum kajak, en sjórinn lekur aftur úr bátnum.

Aðspurð segir Björg að surfskibátar henti ekki síður við íslenskar aðstæður en annars staðar. „Þetta eru miklu meiri „surf“-bátar,“ segir hún. „Þeir eru gerðir til að takast á við öldur, ekki eins og sjókajakar sem eru meiri ferðabátar. Þú vilt komast í svolítið erfiðar aðstæður á þessum til að þeir séu skemmtilegir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .