Um 34% af öllum tollkvóta fyrir innflutningi kjöts frá löndum Evrópusambandsins á þessu ári er í eigu bænda og afurðarstöðva sem öll eru beinir eða óbeinir aðilar að Hópi um örugg matvæli.

Sá hópur varar einmitt við innflutningi á búvörum með orðunum:

„Óhindraður innflutningur á kjöti, hráum eggjum, ostum og öðrum mjólkurvörum rýfur verndina sem lega landsins og íslenskir búskaparhættir veita okkur og skapar raunverulega hættu fyrir almenning.“

Er þetta hlutfall lægra en á síðasta ári þegar sömu aðilar fengu í sinn hlut af úthlutuðum innflutningskvóta um 44,2%, að því er Félag atvinnurekenda bendir á. Heildarkvótinn er 1.526,5 tonn, en fyrrnefndir aðilar fengu samtals 519,3 tonn af honum í sinn hlut fyrir árið sem nú er hafið.

Þar af flytja þessi fyrirtæki inn 81% af svínakjötstollkvótanum og helminginn fyrir alifuglakjöt. Stærsti aðilinn í þessum hóp er félagið Mata með 245,5 tonn, en það er systurfélag eins stærsta svínaræktanda landsins, Síldar og fisks, sem selur vörur undir merkjunum Ali og Matfugl.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA segir áframhaldandi stórinnflutning bænda og afurðastöðva vera góðar fréttir.

„Fyrirtækin sem standa að Hópi um örugg matvæli sýna í verki að þau telja búvörur sem fluttar eru inn frá ríkjum Evrópusambandsins öruggan mat, þótt þau segi annað á vefnum sínum. Enda lúta þessar vörur heilbrigðiseftirliti samkvæmt sömu reglum og gilda á Íslandi,“ segir Ólafur á vef FA um málið.