Um 326 milljarðar evra voru færðir af innstæðureikningum á Spáni, Írlandi, í Portúgal og Grikklandi á síðustu tólf mánuðum, samkvæmt gögnum Bloomberg. Gögnin ná til 31. júlí sl.

Í umfjöllun Bloomberg segir að upphæðin komi saman við aukningu innlána í sjö ríkjum sem teljast kjarni evrusvæðisins, þar á meðal Frakkland og Þýskaland.

Fjármagnsflóttinn hefur leitt til hærri vaxta í ríkjunum sem glíma við flóttann. Vextirnir eru allt að 5%, hæstir í Grikklandi. Hærri fjármögnunarkostnaður hefur valdið hækkunum á lánakjörum fyrirtækja og einstaklinga en meðalvextir nýrra lána í júlí voru rúmlega 7% í Grikklandi og um 6,5% á Spáni. Til samanburðar eru vextirnir um 4% í Þýskalandi, Frakklandi og Hollandi.