Dæmi eru um að fólk hafi flutt úr landi til þess að forðast greiðslu auðlegðarskatts. Þetta segir Alexander G. Eðvardsson, sviðsstjóri skattasviðs KPMG í samtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins. Að hans sögn má berlega sjá að breytingar á skattaumhverfi á síðustu árum hafi haft áhrif á hegðun fólks. „Ég þekki þess dæmi að fólk hafi gripið til ýmissa ráða til þess annað hvort að minnka greiðslu auðlegðarskatts eða jafnvel að komast hjá henni. Í sumum tilfellum hefur fólk flutt úr landi, en eftir aðstæðum getur það með þeim hætti komist alfarið hjá greiðslu auðlegðarskatts, en eignaskattar af þessu tagi eru nú fátíðir í löndunum í kringum okkur,“ segir Alexander.

Hann bætir því við að þessi leið sé betur fær þeim er eiga eignir, svo sem verðbréf, erlendis enda sé erfiðara að forðast skatt af tekjumyndandi eignum sem staðsettar eru á Íslandi. Þeir sem eigi eignir hérlendis verði að greiða fjármagnstekjuskatt en sleppi þó við auðlegðarskattinn.

Önnur leið sem nefnd er til þess að minnka skattstofn er listaverkakaup og segir í grein Morgunblaðsins að leiða megi líkur að því að fjárhagslegar og skattalegar ástæður séu fyrir því að listaverk hafi verið keypt yfir matsvirði á nýlegum listaverkauppboðum. „... listaverk eru sjaldnast, ef nokkurn tímann, talin fram til skatts. Með því að kaupa verkin er fólk því að minnka skattstofn sinn vegna auðlegðarskatts,“ segir í umfjöllun Morgunblaðsins.