„Við höfum unnið um áratugaskeið í útflutningi á kerfi sem við höfum forritað og sett upp fyrir áliðnaðinn í meira en tuttugu álverum víðs vegar um heiminn,“ segir Brynjar Bragason, sviðsstjóri hjá EFLU verkfræðistofu.

EFLA er meðal þeirra íslensku verkfræðistofa sem eru með talsverð umsvif í öðrum löndum og fyrirtækið rekur dóttur- og hlutdeildarfélög meðal annars í Noregi og Svíþjóð. Þau félög eru í afmörkuðum verkefnum, til dæmis á sviði háspennulína og olíu, en starfsmenn stofunnar hér á landi sinna einnig stórum og fjölbreyttum verkefnum erlendis. Brynjar talar um þetta sem útflutning á hugviti, þar sem víða hafi verið komið við í iðnaði og orkutengdum verkefnum.

„Undanfarin fjögur ár höfum við verið að hasla okkur völl í olíuiðnaðinum, sérstaklega í Noregi. Þar höfum við farið út á átta palla og höfum meðal annars búið til hermilíkan fyrir borpalla.“ Þá hefur fyrirtækið nýhafið samstarf við íslensk-norska orkufyrirtækið Green Energy Group, sem starfar að virkjunarmálum í Kenía. Hugbúnaðarsérfræðingur frá EFLU er nýkominn heim úr fyrstu ferð sinni til Kenía að sögn Brynjars. „Við höfum áður unnið fyrir öll íslensku mjólkurbúin og erum nú byrjuð að vinna fyrir mjólkurbúið Tine í Noregi, sem er stærra en öll íslensku mjólkurbúin samanlagt. Þar erum við í hugbúnaðarþróunog uppsetningu. Þetta sýnir breiddina í verkefnum, við erum víðs vegar að flytja út hugvit og sérfræðiþekkingu í forritunarstýringum stjórnbúnaðar.“

Góð tækifæri fyrir íslenskan tækniiðnað

„Noregur er langstærsti erlendi markaðurinn okkar. Þar erum við búin að vera með starfsemi í fimm ár í mjög fjölbreyttum verkefnum,“ segir Valur Hreggviðsson, viðskiptastjóri hjá Verkís. Verkefni fyrirtækisins á erlendri grundu eru mjög fjölbreytt að hans sögn. Þau eru í mörgum heimsálfum og að sögn Vals er stór hluti verkefna í fyrirtækinu almennt alþjóðlegur. Meðal fyrrnefndra verkefna í Noregi eru vegagerð, vegahönnun og sundlaugahönnun, auk þess sem Verkís kemur að uppsetningu á lífgasverksmiðju í Bergen.

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 18. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .