Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra, gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag við því að Mjólkursamsalan væri farin að hafa af því umtalsverðar tekjur af því að selja sérleyfi á skyri í útlöndum. „Íslenskar hendur vinna ekki þetta skyr,“ sagði Árni Páll og gagnrýndi í óundirbúnum fyrirspurnartíma að sala sérleyfanna flytji störf úr landi. Gagnrýni Árna Páls var á svipuðum nótum og í síðustu viku þegar hann sagði Íslendinga geta átt von á því að sjá íslenskt skyr merkt Made in Sweden .

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra svaraði því til að Íslendingar verði að gera sér grein fyrir því að þeir eru þátttakendur á alþjóðlegum markaði. Hann sagði sölu á sérleyfum til framleiðslu á skyri síður en svo einsdæmi og alls ekki slæma þróun.

„Hingað er ekki flutt kók. Í staðinn selja menn sérleyfi. Þetta dregur úr flutningskostnaði og svo framvegis. Við verðum að vera virkir þátttakendur. Það getur falist í því að leyfa öðrum að framleiða vörur sem við höfum þróað,“ sagði hann.