Eitt fyrsta verk skiptastjóra Wow air, þeirra Þorsteins Einarssonar og Sveins Andra Sveinssonar, var að birta öllum starfsmönnum félagsins uppsagnarbréf. Hefði það ekki náðst fyrir 1. apríl var viðbúið að forgangskröfur í búið hefðu orðið 500-800 milljónum hærri en ella.

Þetta var meðal þess sem kom fram á fyrsta skiptafundi þrotabús Wow air sem fram fór í dag. Á fundinum var farið yfir kröfuskrána og störf skiptastjóra hingað til.

Wow air var tekið til gjaldþrotaskipta þann 28. mars síðastliðinn að beiðni stjórnenda þess. Við það tímamark voru til þrjár milljónir króna á reikningum félagsins en nú stendur fjárhæðin í 1,1 milljarði eftir sölu eigna og innheimtur krafna sem búið átti.

Þorsteinn Einarsson sagði í upphafi fundarins að nauðsynlegt hafi verið að hafa hraðar hendur. Hluti af starfsfólki skrifstofu Wow var fenginn í það verk að útbúa uppsagnarbréf til allra svo unnt væri að birta þau áður en mars myndi renna sitt skeið. Þá var gert samkomulag við stefnuvotta um að birta bréfin og hafðist það skömmu fyrir miðnætti þann 31. mars.

„Með því forðuðum við því að forgangskröfur yrðu hærri en þær hefðu aukist um 500 til 800 milljónir hefði þetta ekki lukkast,“ sagði Þorsteinn Einarsson. Forgangskröfur í búið vegna launa og launatengdra gjalda námu rúmum fimm milljörðum króna.

Hluta forgangskrafna hefur verið hafnað. Þar á meðal má nefna 18 milljóna kröfu Ólafs Höskuldssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Títan, og tæplega 40 milljóna kröfu Stefáns Eysteins Sigurðssonar, fyrrverandi fjármálastjóra Wow. Hið sama gildir um 22 milljóna kröfu Skúla Mogensen.

Kostnaður við skipti búsins nemur nú 121 milljónum en þar af er þóknun til skiptastjóra 33,3 milljónir. Tímagjald þeirra er 29.500 krónur plús virðisaukaskattur.