Kolbeinn Friðriksson er nýr fjármálastjóri hjá Höld ehf. og mun flytja norður ásamt eiginkonu sinni, Marín Ragnarsdóttur og börnum þeirra tveimur á næstu mánuðum. Kolbeinn segir að það sé mikil ánægja með flutningana á heimilinu þar sem bæði fjölskylda hans og eiginkonunnar séu búsettar fyrir norðan.

„Mér var boðið að koma til liðs við Höld og þótti það strax mjög spennandi og áhugavert starf hjá traustu og góðu félagi,“ segir Kolbeinn. „Höldur er rótgróið og öflugt félag og rekur m.a. eina stærstu bílaleigu landsins, starfsmenn félagsins eru um 300 á há- annatíma og velta félagsins er tæplega 5 milljarðar króna.“

Undanfarin tvö ár starfaði Kolbeinn sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Eik fasteignafélagi. „Síðustu ár hjá Eik fasteignafélagi hafa verið mjög þroskandi og ég hef öðlast mjög mikla reynslu. Eik þrefaldaðist að stærð frá því ég hóf þar störf og var hlutafé félagsins skráð í Kauphöllina í vor. Núna er ég tilbúinn að takast á við nýjar áskoranir enda er mikill vöxtur í ferðamannaiðnaðinum og gríðarlega gaman að fá að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Einnig skemmir ekki fyrir að starfið er fyrir norðan“ segir Kolbeinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð