Stjórn ELKEM samþykkti í dag að flytja framleiðslu á magnesíumbættu kísisjárni frá Ålvik við Harðangursfjörð í Noregi til Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, sem ELKEM á líka, segir í tilkynningu.

Endanleg afgreiðsla verkefnisins er háð samþykkt stjórnar ORKLA eiganda ELKEM. Gert er ráð fyrir að þessi sérhæfða framleiðsla hefjist hérlendis í febrúar 2008.

Þar með eykst verðmætasköpun á vegum Íslenska járnblendifélagsins verulega án þess að raforkunotkun aukist og mun meiri stöðugleiki verður í rekstrinum en lengst af hefur verið í 27 ára sögu fyrirtækisins.

Alls verða til 40 ný störf hjá Íslenska járnblendifélaginu þegar framleiðsla magnesíumkísiljárns kemur þar til sögunnar.

Breytingin kallar á fjárfestingar á Grundartanga fyrir allt að þrjá milljarða króna, einkum í tækjum og búnaði.

Nýtt hús verður reist yfir deigluverkstæði en að öðru leyti verður nýtt betur sú aðstaða sem fyrir er á athafnasvæðinu. Gert er ráð fyrir að velta fyrirtækisins aukist um 3,5 milljarða króna við breytinguna.

Svokölluð sérframleiðsla (value added products) var um 15% af heildarframleiðslu Íslenska járnblendifélagsins árið 2000. Sérframleiðsluhlutfallið er komið í 45% árið 2006 og fer að minnsta kosti upp í 85% árið 2008 með tilkomu magnesíumbætta kísiljárnsins.

Sérframleiddar afurðir eiga það sameiginlegt að vera ætlaðar til sérhæfðrar notkunar eða framleiðslu af ýmsum toga.

Þannig eru afurðir lágtítanframleiðslu á Grundartanga meðal annars notaðar í stál í spennubreyta og afurðir væntanlegrar framleiðslu magnesíumkísiljárns verða meðal annars notaðar til að steypa grunnhluta bílvéla (blokkir).