Sigríður Benediktsdóttir lauk doktorsprófi í hagfræði frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum árið 2005. Að því loknu starfaði hún sem hagfræðingur hjá Seðlabanka Bandaríkjanna í tvö ár. Frá árinu 2007 var hún kennari og aðstoðarmaður deildarforseta við hagfræðideild Yale. Í fyrra réð hún sig síðan til Seðlabankans, og fjölskyldan því á leið heim.

„Elsti strákurinn var kominn á aldur. Hann er nærri gagnfræðiskólaaldri og það var því spurning um að drífa sig. Einnig hefur manninn minn lengi langað heim og mig líka. Ég fékk auðvitað að vera hér í eitt og hálft ár á árunum 2009 og 2010, sem hann fékk ekki. Starfið sem ég tók við er áhugavert og þess vegna ákvað ég að koma,“ segir hún um ástæður þess að þau fluttu heim.

Hvernig er að koma úr akademíunni í Bandaríkjunum í starfið hér heima?

„Ég vann í Seðlabanka Bandaríkjanna í nokkur ár og svo í akademíunni í fimm ár. Af árunum í Yale var ég heima í um eitt og hálft ár að vinna í rannsóknarnefndinni. Ég ber núverandi starf meira saman við það sem ég gerði í Seðlabanka Bandaríkjanna og reyni að taka með mér ákveðna hluti þaðan. Miðað við háskólastarfið er þetta allt annað. Ég hef mjög gaman af því að kenna og sem háskólakennari gefst meiri tími til þess að fylgjast með nýjustu rannsóknum. Ég reyni hins vegar að fylgjast áfram með,“ segir Sigríður.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Sigríði. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.