Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) hefur keypt 1.625.000 hluti í Brim af félaginu Fiskitanga en þau eru bæði í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánssonar, stjórnarmanns Brims. Verðið á hverjum hlut var 41,7 krónur og kaupverðið því rúmlega 67,8 milljónir króna.

Guðmundur, sem lét af störfum sem forstjóri Brims í lok apríl síðastliðnum, seldi ÚR einnig restina af eigin hlutabréfum í Brim. Þau voru 19.797 talsins og kaupverðið nam því 825 þúsundum króna.

Aðilar sem teljast fjárhagslega tengdir Guðmundi eiga í dag 859,9 milljónir hluta í Brim, samkvæmt flöggunartilkynningu , en það samsvarar tæplega 44% af hlutafé félagsins. Miðað við sölugengið er verðmæti þessara bréfa um 35,9 milljarðar króna.