Drón eru tiltölulega ný tækni sem hefur þróast mikið síðustu ár. Arnar Þór Þórsson stofnaði í vikunni fyrirtækið Dronefly ehf. sem hefur það að markmiði að flytja inn og markaðssetja drón á Íslandi. „Ég er að flytja inn drón frá fyrirtæki sem heitir DJI og er staðsett í Kína. Alveg frá drónum fyrir áhugamenn og upp í „professional“ drón fyrir upptökur og annað slíkt,“ segir Arnar Þór.

Hann hefur sjálfur þó nokkra reynslu þegar kemur að drónum, en hann hefur unnið við að fljúga slíkum tækjum fyrir auglýsingafyrirtæki og aðra. Hann segir að markaðurinn sé alltaf að stækka og drón hafi þróast gífurlega að undanförnu. „Sérstaklega hjá þessu fyrirtæki, DJI, sem er á toppnum í dag á heimsvísu í þróun á þessum tækjum. Fyrirtækið hefur verið að selja vöruna út um heim allan og loksins fáum við Íslendingar að njóta góðs af því.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .