Fyrirtækið Icelandic Chinese Products (ICP), hefur keypt verksmiðju í Kína til að vinna sæbjúgu veidda á Íslandsmiðum. ICP hefur starfað í Kína síðan 2003 og unnið að sölu fiskhráefnis til Kína. Meðal annars hefur það síðastliðin 3 ár flutt út í smáum stíl undirmálsfisk, sem er handunnin úti en er of smár til vinnslu í vélum hérlendis.

“Síðan vinnum við að vinnslu á vörum sem er nýsköpun í sjávarútvegi, þ.a.m. sæbjúgu, með markaðsetningu og vinnslu í Kína,” sagði Kristján F. Olgeirsson, framkvæmdastjóri ICP, í viðtali við Viðskiptablaðið. Unnið hefur verið að þessu verkefni í þrjú ár en í nóvember síðastliðinn opnaði það vinnslu í hafnarborginni Qingdao, í Austur-Kína. Það var gert í sameiningu við kínverskt fiskvinnslufyrirtæki, sem rekur 14.000 fermetra verksmiðju en ICP fær aðgang af 3.500 fermetra plássi.

“Við höfum verið að senda gáma af sæbjúgum í vinnslu þarna úti en núna verður þetta alfarið sent beint til okkar,” sagði hann en á vormánuðum má vænta að fyrsti fiskurinn verði kominn í vinnslu í verksmiðjunni í Kína.

Ítarleg úttekt um íslensk fyrirtæki í Kína verður í Viðskiptablaðinu á morgun, þriðjudag.