FMB ehf. hefur gert hluthöfum Fiskmarkaðs Íslands yfirtökutilboð í hlut þeirra í félaginu, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Verð sem hluthöfum í Fiskmarkaði Íslands hf. er boðið fyrir hluti sína nemur 7 krónum á hvern hlut og samsvarar það verð hæsta verði sem FMB ehf. og tengdir aðilar hafa greitt fyrir hluti í Fiskmarkaði Íslands hf. síðastliðna 6 mánuði.

Fiskmarkaður Íslands er metinn á 498 milljónir en útgefið hlutafé í Fiskmarkað Íslands nemur 71.116.333 hlutum.

Þann 24. mars 2006 eignaðist FMB ehf., 50,38% hlutafjár í Fiskmarkaði Íslands. Með kaupunum myndaðist yfirtökuskylda í samræmi við ákvæði VI. sbr VII. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003.

Eignarhlutur FMB ehf. í Fiskmarkaði Íslands hf. þann 10. apríl 2006 nam 61.598.266 hlutum, eða sem nemur 86,62% af útgefnu hlutafé Fiskmarkaðar Íslands hf.

FMB ehf. hefur ekki tryggt sér loforð fyrir því að aðrir hluthafar í Fiskmarkaði Íslands hf. muni taka yfirtökutilboðinu, né heldur hefur félagið tryggt sér frekari atkvæðisrétt í félaginu en sem nemur þeim rétti sem fylgir núverandi eignarhlut FMB ehf. í Fiskmarkaði Íslands hf.

Stærstu eigendur FMB ehf. eru Páll Ingólfsson, Bárður Tryggvason, Sigríður
Jóhannesdóttir, KG Fiskverkun ehf. (aðaleigandi: Hjálmar Þór Kristjánsson), Tryggvi Leifur Óttarsson, Hraðfrystihús Hellissands hf. (aðaleigandi: Ólafur Rögnvaldsson), Guðmundur Runólfsson hf. (aðaleigandi: Guðmundur Smári Guðmundsson) og Fannar Baldursson.

Samtals eiga ofangreindir aðilar 68,98% í FMB ehf.