*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 15. júlí 2020 10:35

FME áminnir LSR, Almenna og Íslenska

Almenni lífeyrissjóðurinn telur lagaákvæðið „ekki skýrt“ og túlkunina vera „í andstöðu við áralangan skilning og framkvæmd.“

Ritstjórn
Fjármálaeftirlit
Haraldur Guðjónsson

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefur gefið út gagnsæistilkynningu um að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Almenni lífeyrissjóðurinn og Íslenski lífeyrissjóðurinn hafi brotið gegn lögum um mótaðilaáhættu. 

LSR gerðist sekur um að brjóta lög sem kveða á um að lífeyrissjóði sé ekki heimilt að eiga meira en 20% af hlutafé í hverju félagi eða hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra.

Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að eftirlitskerfi LSR hafi ekki verið með fullnægjandi hætti hvað varðar vöktun á lagalegum takmörkunum fjárfestingarheimilda lífeyrissjóðsins samanber lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. 

Almenni og Íslenski gerðust sekir um brot á lögum sem segja að lífeyrissjóði sé ekki ekki heimilt að eiga meira en 25% af hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum eða einstakri deild þeirra. 

FME komst að þeirri niðurstöðu að eignir lífeyrissjóðanna hafi farið yfir lögbundið hámark laganna án þess að því hafi verið tilkynnt um brotið í samræmi við lögin. 

Túlkunin „í andstöðu við áralangan skilning og framkvæmd“  

Í tilkynningu á vef Almenna segir að gagnsæistilkynningin byggir á túlkun FME á umræddu lagaákvæði. Að mati sjóðsins er lagaákvæðið ekki skýrt og túlkunin í andstöðu við áralangan skilning og framkvæmd. 

„Ólíkur skilningur lýtur að því hvort hver og ein deild í deildaskiptum lífeyrissjóði megi eiga lögbundið hámark í verðbréfasjóði eða hvort lífeyrissjóði beri að leggja saman eignarhluta allra deilda. Fjárfesting lífeyrissjóðsins í umræddum verðbréfasjóði var í samræmi við fjárfestingarstefnu sjóðsins. Almenni lífeyrissjóðurinn gerði strax viðeigandi ráðstafanir þegar í ljós kom að eignir voru ekki i samræmi við ofangreinda túlkun.

Að mati Almenna lífeyrissjóðsins er óheppilegt að lög um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða séu með þeim hætti að hægt sé að túlka lagaákvæði á ólíkan hátt. Sjóðurinn mun koma ábendingum um það á framfæri,“ kemur fram í tilkynningu Almenna.