Á árinu 2015 tók Fjármálaeftirlitið 42 mismunandi verðbréfamarkaðseftirlitsmál til skoðunar. Helmingur þeirra eða 21 mál kom til skoðunar vegna ábendinga Nasdaq Iceland en hinn helmingurinn var tekinn til skoðunar út frá eigin frumkvæði FME eða vegna ábendinga frá aðilum öðrum en Kauphöllinni. Frá þessu segir í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins.

Rúmlega 20 málum hefur verið lokið án aðgerða, þrjú mál voru send til rannsóknarhóps FME og þremur lokið með viðurlögum. Þá eru 13 mál þessara 42 ennþá til skoðunar þegar ársskýrslan var rituð í máílok. Flest þessara mála varða möguleg brot á upplýsingaskyldu útgefanda, flöggunarreglum, innherjasvikum og markaðsmisnotkun.

Verðbréfaútgáfa hefur aukist

Útgáfa fjárfestingarbanka hefur aukist ár frá ári, þegar talið er í fjárhæðum. Aukning varð á milli áranna 2014 og 2015 um 103% - eða úr 43 milljörðum króna í 93 milljarða króna. Meirihluti útgáfu bankanna hefur verið í sértryggðum skuldabréfum en þau námu 67% af heildarútgáfu.

Bankarnir sem um ræðir eru Landsbankinn, Íslandsbanki, Arion banki og Kvika. Árin 2013-2015 hefur Íslandsbanki gefið út hæstu fjárhæðina öll árin, og þar á eftir Arion banki.

Luku þremur málum með viðurlögum

Eins og fyrr segir var þremur málum á árinu lokið með viðurlögum. Samtals námu sektirnar sem fyrirtækin greiddu fyrir brot sín fimm milljónum króna en félögin sem um ræðir eru BankNordik og Ríkisútvarpið auk einstaks aðila.

Aðilinn sem umræðir hlaut hæstu sektina en hana hlaut hann fyrir að hafa stundað innheimtu án leyfis. Þar með braut hann gegn innheimtulögum og var honum gert að greiða 2,4 milljónir króna í sekt.

BankNordik hinsvegar braut lög um verðbréfaviðskipti með því að birta ekki upplýsingar um viðskipti fruminnherja eins fljótt og hægt var en einnig voru viðskiptin ekki tilkynnt til FME innan gefins tímafrests. BankNordik var gert að greiða 1,8 milljón króna í sekt.

Ríkisútvarpið braut þá gegn lögum með því að standa ekki skil á listum yfir fruminnherja og aðra fjárhagslega tengda fruminnherja á réttum tíma og var því gert að greiða 800 þúsund króna sekt.