Fjármálaeftirlitið hefur beint tilmælum til bankanna um að stilla innheimtuaðgerðum í hóf meðal þeirra sem réttaróvissa ríkir um í kjölfar gengislánadóms Hæstaréttar sem var kveðinn upp þann 15. febrúar síðastliðinn. Þetta kemur fram á vefsíðu stjórnarráðsins .

Þar kemur fram að fjallað var um innheimtu þeirra lána sem réttaróvissa ríkir um á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í síðustu viku. Fulltrúar FME voru meðal þeirra sem kallaðir voru fyrir nefndina. Ætlunin er að kalla fulltrúa bankanna á fund nefndarinnar á morgun, þriðjudag, til þess að kanna viðbrögð þeirra við tilmælum FME.

Þá stendur til að ræða nánar hvort þörf sé á auknum lagaheimildum, svo sem til að samræma aðgerðir sýslumanna, tryggja flýtimeðferð, endurupptöku mála sem voru reist á ólögmætum forsendum og til að tryggja gjafsókn eða skaðleysi neytenda í afdrifaríkum prófmálum.