Fjármálaeftirlitið (FME) hefur boðað útgefendur fjármálagerninga á skipulegum verðbréfamarkaði til fundar í dag.

Á vef FME kemur fram að á fundinum munu starfsmenn Fjármálaeftirlitsins fara yfir upplýsingaskyldu útgefenda á skipulegum verðbréfamarkaði en lögð verður sérstök áhersla á þann þátt upplýsingaskyldunnar að greina frá upplýsingum sem líklegar eru til að hafa marktæk áhrif á markasverð fjármálagerninga ef opinberar væru.

Á fundinum verður einnig fjallað sérstaklega um viðurlög við brotum gegn ákvæðum laga og reglna um upplýsingaskyldu.

Þá hvetur Fjármálaeftirlitið alla útgefendur verðbréfa til að mæta á umræddan fund og þá sérstaklega útgefendur skuldabréfa.