Fjármálaeftirlitið (FME) hefur verið dæmt til að greiða Ingólfi Guðmundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga, 7 milljónir króna vegna fjártjóns, eina milljón í miskabætur og 900 þúsund í málskostnað. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Tildrög málsins eru þau að Ingólfur var á skömmu eftir áramótin 2010 ráðinn framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Í ágúst sama ár ákvarðaði stjórn Fjármálaeftirlitsins að Ingólfur uppfyllti ekki hæfisskilyrði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Að fyrri starfsferill hans hjá Íslenska lífeyrissjóðnum hefði verið með þeim hætti að ekki væri tryggt að hann gæti gegnt starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga á forsvaranlegan hátt.

Vísaði Fjármálaeftirlitið sérstaklega að fjárfestingar Íslenska lífeyrissjóðsins farið út fyrir lögbundin mörk þegar Ingólfur starfaði þar. Fór Fjármálaeftirlitið fram á það við stjórn Lífeyrissjóðs verkfræðinga að hún sæi til þess að Ingólfur gegndi ekki stöðu framkvæmdastjóra. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sagði enn fremur að ef stjórn lífeyrissjóðsins yrði ekki við þessari kröfu myndi stjórn FME víkja honum einhliða frá störfum. Nokkrum dögum seinna birti Lífeyrissjóður verkfræðinga fréttatilkynningu þess efnis að Ingólfur hefði látið af störfum vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.

Naut ekki andmælaréttar
Ingólfur taldi á sér brotið meðal annars vegna þess að hann hefði ekki notið andmælaréttar. Einnig var hann ósáttur við að hafa ekki fengið aðgang að þeim gögnum sem Fjármálaeftirlitið byggði ákvörðun sína á. Hún lét þau ekki af hendi þrátt fyrir tilmæli Umboðsmanns Alþingis. Ingólfur höfðaði því dómsmál og féll dómur í því þann 5. janúar 2012 þar sem ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var dæmd ógild. Voru Ingólfi dæmdar 1,3 milljónir í málskostnað í því máli.

Ingólfur höfðaði því næst skaðabótamálið sem dómur féll í nú í vikunni, eins og áður sagði. Hann taldi að með ólögmætri ákvörðun sinni um að víkja honum úr starfi hefði Fjármálaeftirlitið valdið honum fjártjóni og miska. Byggði hann kröfur sínar á því tekjutapi sem hann hefði orðið fyrir og líklegrar tekjuskerðingar til framtíðar. Í aðalkröfu sinni fór hann fram á 89 milljónir króna í bætur vegna fjártjóns og 4 milljónir til viðbótar í miskabætur. Til vara fór hann fram á 87 milljónir í bætur vegna fjártjóns og 4 milljónir vegna miska og til þrautavara fór hann fram á að dómurinn legði sjálfur mat á fjárhæð bótakrafnanna.

Niðurstaða dómsins var sú að Fjármálaeftirlitið hefði með ólögmætri ákvörðun sinni valdið Ingólfi fjártjóni og miska. Ákvörðunin hafi ekki aðeins verið haldin form-annmarka, með því að brotið hafi verið gegn mikilvægri öryggisreglu í stjórnsýslurétti, heldur hafi tvær af þremur efnisforsendum ákvörðunarinnar ekki átt við rök að styðjast.

Dómarinn taldi einnig að Fjármálaeftirlitið hafi ekki rannsakað málið nægjanlega vel áður en það tók ákvörðun, "enda tengist rannsóknarreglan náið andmælarétti," segir í dómnum.  Ekki sé útilokað að mat stjórnar Fjármálaeftirlitsins hefði orðið annað ef Ingólfur hefði fengið að njóta fulls andmælaréttar og athygli stjórnar Fjármálaeftirlitsins hefði verið vakin á leiðréttum skýrslum íslenska lífeyrissjóðsins.

Segir í dómnum að Fjármálaeftirlitinu hafi ekki tekist, frekar en í málflutningi sínum í fyrra dómsmálinu, að sýna fram á að skortur á eftirliti með því að fjárfestingar Íslenska lífeyrissjóðsins væru innan lögbundinna marka hafi verið ákvörðunarforsenda fyrir því að eftirlitið taldi Ingólf ekki hæfan til að gegna starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga.

FME birti ónákvæma og villandi frétt
Í dómum segir jafnframt að það sé mat dómara að Fjármálaeftirlitið beri einnig bótaábyrgð vegna fréttar á heimasíðu sinni þann 12. apríl 2011. Fréttin á heimasíðunni var birt vegna fréttar Fréttablaðsins sama dag undir fyrirsögninni "Lífeyrissjóðsstjóri átti rétt á að fá gögn" en fréttin fjallaði um tilmæli Umboðsmanns Alþingis í máli Ingólfs. Taldi dómarinn að í fréttinni á heimasíðu FME hefði verið gefið í skyn að Ingólfur sætti sakamálarannsókn en það hafi ekki verið raunin því rekstraraðili Íslenska lífeyrissjóðsins hefði verið til rannsóknar, ekki Ingólfur sjálfur. Var fréttin því bæði talin ónákvæm og villandi og ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Í dómnum er líka sagt að gagnsæistilkynning sem Fjármálaeftirlitið birti á vef síðunum í maí 2011 hafi ekki verið í samræmi við lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi  og að ekki hafi verið gætt jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Þótt Fjármálaeftirlitið hafi fjarlægt tilkynninguna "var skaðinn skeður," segir í dómnum.

Eins og áður sagði var niðurstaðan því sú að Ingólfi voru dæmdar 7 milljónir króna í bætur vegna fjártjóns og ein milljón í miskabætur. Enn fremur var FME gert að greiða Ingólfi 900 þúsund krónur í málskostnað.