Fjármálaeftirlitið (FME) hefur efasemdir um uppgjörsaðferðir fjárfestingarbankanna VBS banka og Saga Capital með tilliti til eiginfjárútreikninga.

Báðir bankarnir hafa fært tekjur í bókhald sitt vegna láns á lágum vöxtum frá ríkinu. Þetta bætir afkomuna og eigið fé verður mun hærra fyrir vikið.

Viðskiptablaðinu hefur borist skriflegt svar frá FME vegna málsins þar sem fram kemur að reikningsskilareglur heimili eða jafnvel krefjist tekjufærslu af því tagi sem hér um ræðir. Hins vegar sé ekki sjálfgefið að eigið fé samkvæmt reikningsskilum sé í öllum tilvikum tekið gilt í útreikningi á eiginfjárgrunni.

„Í eiginfjártilskipun ESB er ákvæði sem, að mati Fjármálaeftirlitsins, heimilar ekki að eigið fé sem myndað er með slíkum hætti sé meðtalið í eiginfjárgrunni,“ segir í svari FME.

„Hins vegar hefur þetta tilskipunarákvæði ekki verið innleitt í íslensk lög eins og bar að gera. Fjármálaeftirlitið mun leggja það til að ákvæðið verði innleitt sem fyrst í íslenskan rétt.“