Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að endurgreiða 22 fjármálafyrirtækjum samtals 40,2 milljónir króna sem innheimtar voru vegna vinnu við greiningu á áhrifum gengislánadóma Hæstaréttar frá árinu 2010. Ofan á þessa fjárhæð bætast svo vextir, sem í einhverjum tilvikum gætu verið dráttarvextir hafi viðkomandi fyrirtæki gert kröfu um endurgreiðslu.

Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í maí á þessu ári að starfsemi FME eigi að vera kostuð af hinu almenna eftirlitsgjaldi, sem reyndar ber flest merki skattlagningar þrátt fyrir nafnið, eða af varasjóði sem FME er heimilt að koma upp. Í ljósi þess að í lögum sé gert ráð fyrir því að almenna eftirlitsgjaldið standi undir starfsemi eftirlitsins og að varasjóður eigi að geta mætt ófyrirséðum útgjöldum verði að túlka þröngt heimild til álagningar sérstakra þjónustugjalda.

Var það álit Umboðsmanns að FME ætti að endurgreiða gjaldið og hefur eftirlitið orðið við þeirri kröfu nú.