Fjármálaeftirlitið hefur lokið athugun á framkvæmd lokaðs útboðs á hlutabréfum Eimskipafélags Íslands hjá Straumi fjárfestingabanka og Íslandsbanka. Í kjölfar útboðsins komu fréttir af því að einhverjir markaðsaðilar hefðu, áður en útboðinu lauk, fengið að vita af því að stjórnendur Eimskips ætluðu að afsala sér kaupréttarsamningum. Þeir hefðu því getað gert tilboð í félagið með fyrirvara um að fallið yrði frá kaupréttarsamningunum í fullri vissu um að það skilyrði yrði uppfyllt.

Í tilkynningu FME segir að í kjölfar ábendinga sem bárust eftirlitinu varðandi útboðið, fóru fulltrúar þess á vettvang og öfluðu gagna þann 29. október 2012 hjá umsjónaraðilum útboðsins, Straumi fjárfestingabanka hf. og Íslandsbanka hf. Frekari gagnaöflun átti sér stað hjá framangreindum aðilum eftir því sem athuguninni vatt fram, en jafnframt var aflað gagna hjá aðilum sem Fjármálaeftirlitið taldi geta veitt upplýsingar og gögn um málið.

Fjármálaeftirlitið hefur lokið athuguninni og fann ekki dæmi þess að viðskipti hafi verið framkvæmd á grundvelli innherjaupplýsinga. Eftirlitið vekur hins vegar athygli á mikilvægi þess að þátttakendum í lokuðum útboðum sé gert ljóst fyrirfram um takmarkanir og skilmála, t.d. hvort fyrirvarar við tilboð séu heimilaðir. Slíkt treysti tiltrú fjárfesta á að allir sitji við sama borð og er í samræmi við góða viðskiptahætti.