*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 27. nóvember 2013 12:13

FME fær ekki styrk til umbótaverkefna

Ríkið ætlaði að leggja FME til rúmar 120 milljónir króna á móti IPA-styrk. Styrkurinn skilar sér ekki og því fellur fjárloforðið niður.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Lagt er til í fjáraukalögum að Fjármálaeftirlitið fái tæpar 1.700 milljónir króna. Fram kemur í fjáraukalögunum að þetta stafi af tvennu. Í fyrsta lagi að gerð sé tillaga um 1.818,2 milljóna króna fjárveitingu þar sem fjárheimild Fjármálaeftirlitsins flyst frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti til fjármála- og efnahagsráðuneytis. Í öðru lagi er lagt til að niður falli 122,2 milljóna króna fjárheimild til umbótaverkefna.

Fram kemur í fjáraukalögunum að við afgreiðslu fjárlaga var gert ráð fyrir að á móti þeirri fjárheimild sem fellur niður kæmi jafn hár styrkur frá Evrópusambandinu af IPA landsáætlun 2013.

Bent er á það í fjáraukalögunum að í sumar hafi stjórnvöld ákveðið að gera hlé að aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Í framhaldinu tilkynnti framkvæmdastjórn sambandsins að IPA-styrkir yrðu eingöngu veittir til verkefna þar sem samningar hefðu þegar verið undirritaðir. Samningur um þetta verkefni hefur ekki verið undirritaður og því verður ekki af þeim framlögum sem áætluð voru við afgreiðslu gildandi fjárlaga.