„Helstu niðurstöður Fjármálaeftirlitsins varðandi iðgjöld voru að í umhverfi harðnandi samkeppni og versnandi fjárhagsstöðu hafi vátryggingafélögin með auknum hætti leitað leiða til að tengja iðgjöld mati á áhættu hvers viðskiptavinar. Þetta þýðir að skilvísir, varkárir og tjónlausir viðskiptavinir geta notið betri kjara en aðrir. Fjármálaeftirlitið fagnar þessari þróun," segir á vef Fjármálaeftirlitsins þar sem fjallað er um athugun á vátryggingarfélögum síðla hluta ársins 2009.

Tilefni þótti til til að skoða viðskiptahætti félaganna í umhverfi harðnandi samkeppni. Fjármálaeftirlitið sá ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við viðskiptahætti tveggja vátryggingafélaga að því er fram kemur á heimasíðu stofnunarinnar. Einnig leggur FME áherslu á að félögin gæti að afkomunni í markaðssókn sinni.

„Vegna fréttar Fjármálaeftirlitsins (FME) um að þeir hafi gert athugasemdir við viðskipti tveggja tryggingafélaga þegar eftirlitið athugaði iðgjöld og viðskiptahætti vátryggingafélaga á síðari hluta ársins 2009 þá vill VÍS taka það fram að FME gerði ekki athugasemdir við iðgjöld eða viðskiptahætti VÍS," segir í tilkynningu frá VÍS.