Stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum er óheimilt að beita sér fyrir því að lífeyrissjóðir séu nýttir í öðrum tilgangi en kveðið er á um í lögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu (FME).

Tilefni tilkynningarinnar er fréttaflutningur af því að stjórn VR hyggist afturkalla umboð stjórnarmanna Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) sem tilnefndir eru af stéttarfélaginu. Ástæðan fyrir því er „algjör trúnaðarbrestur“ stjórnar VR í garð stjórnarmanna í LV vegna hækkunar á breytilegum verðtryggðum vöxtum á húsnæðislánum hjá sjóðnum. Sem stendur býður LV upp á 2,06% slíka vexti, þá lægstu á markaði, en hyggst hækka þá um 0,2 prósentustig í ágúst. Tillaga stjórnar var samþykkt í gær og verður lögð fyrir fund fulltrúaráðs á morgun.

„Í tilefni frétta um að stéttarfélag hafi til skoðunar að afturkalla umboð stjórnarmanna er félagið hefur tilnefnt í stjórn lífeyrissjóðs vill Fjármálaeftirlitið minna á þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum til starfsemi lífeyrissjóða,“ segir í tilkynningu FME.

Í henni er vikið að því að lífeyrissjóðum sé óheimilt að stunda aðra starfsemi en nauðsynlegt er til að ná markmiðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Stjórn sjóðsins beri ábyrgð á því að starfsemi hans sé í samræmi við nefnd lög.

„Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 129/1997 skal Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með því hvort starfsemi lífeyrissjóðs sé að einhverju leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust. Við mat á framangreindu lítur Fjármálaeftirlitið m.a. til ákvæða laga nr. 2/1995, um hlutafélög, en í 76. gr. þeirra laga segir „Félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins“,“ segir í tilkynningunni.

Það sé mat FME að stjórnarmönnum sjóða sé óheimilt að beita sér fyrir því að sjóðirnir séu nýttir í öðrum tilgangi en getið er í tilvitnaðri málsgrein.