Ingólfur Guðmundsson afhenti Fjármálaeftirlitinu (FME) bréf í morgun þar sem hann fór fram á að stofnunin fjarlægði „ærumeiðandi“ ummæli af heimasíðu sinni. Ef það yrði ekki gert hugðist hann stefna FME enn á ný en Ingólfur hefur unnið tvö mál gegn stofnuninni og samtals verið dæmdar ríflega 10 milljónir króna í málskostnað og bætur.

„Eftir að hafa unnið tvö dómsmál gegn FME og tvívegis fengið stuðning umboðsmanns Alþingis við kvörtunum mínum, þ. á m. vegna umfjöllunar á heimasíðu FME, þá finnst mér það sanngirnismál að þessi meiðandi ummæli verði fjarlægð og afsökunarbeiðni birt,“

„Hafi það ekki verið gert á morgun kl. 15:00 mun ég fela lögmanni mínum að höfða mál vegna þessa,“ segir í tilkynningu sem Ingólfur sendi frá sér í morgun eftir að hafa afhent bréfið.

Nú hefur Fjármáleftirlitið brugðist við þessu og sent frá sér tilkynningu.

„Fjármálaeftirlitinu barst skömmu fyrir hádegi í dag 17. mars beiðni frá Ingólfi Guðmundssyni um að frétt á vef Fjármálaeftirlitsins frá 12. apríl 2011 sem bar yfirskriftina „Athugasemd við frétt Fréttablaðsins“ yrði fjarlægð af vef Fjármálaeftirlitsins. Fréttin hefur verið fjarlægð. Fjármálaeftirlitið mun í framhaldinu skoða aðra þætti beiðni Ingólfs,“ segir í tilkynningu FME.