Fyrstu tölur um tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðanna munu almennt ekki birtast fyrr en um næstu mánaðarmót, en vinna við tryggingafræðilegt uppgjör hefur verið flýtt að beiðni Fjármálaeftirlitsins.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða.

Þá kemur fyrst í ljós hvort einstaka sjóðir þurfi að grípa til þess að lækka lífeyrisréttindin. Hin trausta staða sjóðanna í ársbyrjun 2008 hjálpar mikið til þess að ekki þurfi að grípa til verulegrar lækkunar. Við mat á tryggingafræðilegri stöðu sjóðanna er líka litið til framtíðar, þ.e. hvaða líkur eru á því að sjóðirnir geti náð 3,5% raunávöxtun að meðaltali á næstu áratugum.

En hvernig var staðan um síðustu áramót? Lífeyrissjóðirnir eru nú í að ganga frá ársreikningum sínum og verða þeir almennt birtir í lok þessa mánaðar eða í næsta mánuði.

Ljóst er að raunávöxtun lífeyrissjóðanna var verulega neikvæð í fyrra og að fjárfestingaárangurinn sjóðanna verður sá slakasti frá því að reglulegar mælingar hófust á raunávöxtun sjóðanna árið 1991 segir í frétt landssamtakanna.