Fjármálaeftirlitið fékk 549 milljóna króna viðbótarframlag á fjáraukalögum þessa árs, samkvæmt ákvörðun Alþingis í gær.

Hækkunin á framlaginu til FME var skýrð með auknum kostnaði eftirlitsins vegna þeirrar skyldu sem lögð var á það með neyðarlögunum, sem samþykkt voru í byrjun október.

„Kostnaður þessi er vegna skilanefnda bankanna þriggja, endurskoðunarkostnaðar vegna bráðabirgðastofnefnahagsreikninga bankanna, verðmatskostnaðar vegna aðkeyptra sérfræðinga auk annarrar aðkeyptrar sérfræðiþjónustu," segir í skýringum með framlaginu.