Fjármálaeftirlitið (FME) fylgist vel með því hvað vogunarsjóðir hyggist gera með eignarhluti sína í bönkunum. Þetta segir Gunnar Þ. Andersen, forstjóri eftirlitsins.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að fram hafi komið á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær að erlendir sjóðir, þar á meðal vogunarsjóðir, eigi um 60% í Arion Banka og Íslandsbanka. Bankarnir hafa greitt þeim tæpa 80 milljarða króna frá því samkomulag náðist við kröfuhafa að þeir eignuðust stóra hluti í bönkunum.

Gunnar sagði í samtali við RÚV í hádeginu að á meðal vogunarsjóðanna séu hugsanlega svokallaðir hrægammasjóðir. Eftirlitið fylgist vel með þeim svo ekkert komi á óvart og varðar eignarhald bankanna í framtíðinni.