Fjármálaeftirlitið framkvæmdi athugun á starfsemi Eftirlaunasjóðs starfsmanna Hafnafjarðarkaupstaðar í apríl sl. Í kjölfarið rituðu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins skýrslu þar sem fram komu athugasemdir eftirlitsins og kröfur um úrbætur innan ákveðinna tímamarka.

Nú hafa niðurstöður Fjármálaeftirlistins verið birtar og þær byggað á þeim gögnum og upplýsingum sem aflað var við athugunina.

Helstu athugasemdir sem Fjármálaeftirlitið gerði við starfsemi sjóðsins eru eftirfarandi:

Stjórn og starfsmenn: Gerð var athugasemd við að ekki væru til staðar hjá sjóðnum reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar. Athugasemd var gerð við að ekki hafi legið fyrir samþykki stjórnar um þátttöku framkvæmdastjóra í atvinnurekstri í samræmi lög, en hann er skráður eigandi tveggja einkahlutafélaga. Gerðar voru athugasemdir við að innri endurskoðanda sjóðsins væru falin verkefni fyrir sjóðinn sem tengjast ekki störfum hans sem innri eftirlitsaðila og geta skert óhæði hans.

Samþykktir: Gerð var athugasemd við að samþykktir sjóðsins hafi ekki verið endurskoðaðar frá árinu 2000 til samræmis við núverandi rekstur og lagaumhverfi.

Verklagsreglur um verðbréfaviðskipti stjórnar og starfsmanna: Gerð var athugasemd við að sjóðurinn hafi ekki haldið skrá um tilkynningaskyld viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga eins og ber að gera samkvæmt gildandi verklagsreglum sjóðsins um verðbréfaviðskipti. Þá hafði öðrum ákvæðum er varða tilkynningaskyldu þeirra starfsmanna, sem koma að ákvörðunum eða framkvæmd viðskipta sjóðsins með fjármálagerninga, um öll viðskipti fyrir eigin reikning og verðbréfaeign þeirra þegar þeir tóku við starfi, ekki verið framfylgt. Auk þess höfðu stjórnarmenn sjóðsins ekki undirritað yfirlýsingu um að hafa kynnt sér verklagsreglur sjóðsins um verðbréfaviðskipti.

Fjárfestingar sjóðsins: Gerð var athugasemd við að engir verkferlar væru til staðar hjá sjóðnum varðandi fjárfestingaferli, ákvarðanir og framkvæmd þess. Gerðar voru athugasemdir við útfyllingu á skýrslum um sundurliðun fjárfestinga sjóðsins sem sendar eru Fjármálaeftirlitinu á þriggja mánaða fresti. Óskráðar fjárfestingar voru ekki rétt flokkaðar í öllum tilfellum í skýrslunni og þá hafði lífeyrissjóðurinn ekki flokkað undirliggjandi eignir sjóða.

Áhættustýring og innra eftirlit: Gerð var athugasemd við að ekki væri til staðar heildstæð áhættustýring hjá sjóðnum. Þá var skortur á skjalfestum verkferlum, verklýsingum og lítið um innri reglur hjá sjóðnum. Farið var fram á að sjóðurinn myndi hefja þá vinnu að móta innra eftirlit hjá sjóðnum og áhættustýringu. Gerð var athugasemd við að stjórn sjóðsins hafi ekki sinnt ábendingum innri eftirlitsaðila sjóðsins.

Upplýsingaskylda og upplýsingakerfi: Gerð var athugasemd við að sjóðurinn sendi sjóðfélögum sínum yfirlit aðeins einu sinni á ári. Samkvæmt lögum skal lífeyrissjóður senda yfirlit um iðgjaldagreiðslur eigi sjaldnar en á hálfs árs fresti. Alvarleg athugasemd var gerð við að bókhald sjóðsins sé einungis fært árlega. Þá var gerð athugasemd við utanumhald um fjárfestingar sjóðsins en sjóðurinn hefur ekki yfir að ráða verðbréfakerfi sem gerir alla yfirsýn erfiða og eykur villuhættu.