Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gefið út reglur um einkaumboðsmenn. Reglurnar eru settar á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti og tóku gildi 30. maí 2008.

Þetta kemur fram á vef FME.

Hugtakið einkaumboðsmaður er nýmæli í lögunum, sem tóku gildi 1. nóvember 2007, en reglurnar eru hluti af innleiðingu hinnar svokölluðu MiFID Evróputilskipunar.

Einkaumboðsmaður er aðili sem hefur gert skriflegan samning við eitt fjármálafyrirtæki sem heimilar honum að markaðssetja tiltekna verðbréfaþjónustu fjármálafyrirtækisins fyrir þess hönd. Einkaumboðsmaður þarf að uppfylla tiltekin skilyrði og hafa hlotið leyfi Fjármálaeftirlitsins áður en hann hefur störf, en Fjármálaeftirlitið heldur opinbera skrá yfir þá aðila sem hlotið hafa leyfi.

Meginreglan um einkaumboðsmenn er sú að fjármálafyrirtæki ber fulla og ótakmarkaða ábyrgð á aðgerðum einkaumboðsmanns sem starfar á vegum þess og skulu viðskiptavinir einkaumboðsmanna njóta sömu fjárfestaverndar og ef þeir hefðu átt í viðskiptum við fjármálafyrirtækið sjálft.

Því kemur það í hlut fjármálafyrirtækisins að hafa eftirlit með störfum einkaumboðsmanna sinna og tryggja að þeir stundi heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.

Reglurnar má finna hér.