Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gefið út leiðbeinandi tilmæli um bestu framkvæmd við lausafjárstýringu fjármálafyrirtækja. Tilmælin gilda bæði fyrir móðurfélög og samstæður fjármálafyrirtækja, eftir því sem við á. Þetta kemur fram í frétt á vef FME.

Tilmælin leysa af hólmi leiðbeinandi tilmæli nr. 2/2004 um framkvæmd á lausafjárstýringu gengisbundinna liða hjá fjármálafyrirtækjum.

Í nýju tilmælunum eru settar fram nokkrar meginreglur um bestu framkvæmd lausafjárstýringar, en þau byggja á tilmælum frá Basel nefndinni um bankaeftirlit um bestu framkvæmd við stýringu í lausu fé hjá bönkum (e. Sound Practices for Managing Liquidity in Banking Organisations).

Í tilmælunum segir að mikilvægt sé að fjármálafyrirtæki leggi sérstaka áherslu á lausafjárstýringu og endurfjármögnun og fari eftir tilmælunum.

Laust fé sé grundvallaratriði fyrir rekstrarhæfi sérhvers fjármálafyrirtækis. Traust stýring á lausu fé geti dregið úr líkum á alvarlegum áföllum, auk þess sem áfall hjá einu fjármálafyrirtæki geti haft áhrif á stöðugleika fjármálakerfisins í heild. Af þeim sökum sé mikilvægt að greina hvernig fjármögnunarþörf kunni að þróast við ólíkar aðstæður.

Ný leiðbeinandi tilmæli FME má nálgast hér .