Fjármálaeftirlitið (FME) hefur lokið skoðun á starfslokum fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins og hefur með bréfi til stjórnar sjóðsins gert grein fyrir niðurstöðunni. FME fellst ekki á þá skoðun stjórnar sjóðsins að þáverandi formaður og varaformaður hafi haft umboð til að gera viðauka við ráðningarsamning framkvæmdastjórans án aðkomu annarra stjórnarmanna. FME gerir einnig athugasemd við að ákvörðun stjórnar sjóðsins um breytingu á launakjörum framkvæmdastjórans var ekki skráð í fundargerð í lok mars 2000 þegar launakjör framkvæmdastjórans voru til umræðu í stjórninni.

Jóhannes Siggeirsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins, lét af störfum að eigin ósk í febrúar síðastliðnum. Ákvörðunin var sameiginleg niðurstaða stjórnar og Jóhannesar, sem hafði verið framkvæmdastjóri sjóðsins frá stofnun hans árið 1992. Talsverð fjölmiðlaumfjöllun varð um starfslok Jóhannesar og í kjölfarið samþykkti stjórn sjóðsins nýjar verklagsreglur um hvernig staðið skuli að ráðningu og ákvörðun um starfskjör framkvæmdastjóra. Gengið hefur verið frá ráðningu núverandi framkvæmdastjóra sjóðsins samkvæmt hinum nýju verklagsreglum.

Þegar gengið var frá starfslokum Jóhannesar í febrúar á þessu ári kom í ljós viðauki við ráðningarsamning hans sem fyrrverandi formaður og varaformaður sjóðsins gengu frá í maí 2000. Um þau starfskjör var núverandi stjórn ekki kunnugt. Að fengnu áliti lögmanna var það niðurstaða núverandi stjórnar sjóðsins að ekki væru forsendur til annars en að standa við skriflegan samning við framkvæmdastjórann og því hlyti samningur um starfslok hans að taka mið af gildandi ráðningarsamningi ásamt viðaukum.

Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Sameinaða lífeyrissjóðsins frá 27. júní síðast liðnum kemur fram að Fjármálaeftirlitið fellst ekki á þá skoðun stjórnar sjóðsins að þáverandi formaður og varaformaður hafi haft umboð til að gera viðauka við ráðningarsamning framkvæmdastjórans án aðkomu annarra stjórnarmanna. Fjármálaeftirlitið gerir einnig athugasemd við að ákvörðun stjórnar sjóðsins um breytingu á launakjörum framkvæmdastjórans var ekki skráð í fundargerð í lok mars 2000 þegar launakjör framkvæmdastjórans voru til umræðu í stjórninni.

Í ljósi þessa telur Fjármálaeftirlitið að við endurskoðun á ráðningarsamningi framkvæmdastjórans í maí árið 2000 hafi ekki verið fylgt ákvæðum 29.gr. laga nr.129/1997 sem kveða á um að stjórn lífeyrissjóðs skuli ákveða laun og ráðningarkjör framkvæmdastjóra. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins kemur fram að eftirlitið gerir alvarlega athugasemd við sjóðinn vegna þessa en tilkynnir jafnframt að það muni ekki grípa til frekari aðgerða þar sem fyrningarfrestur vegna brota á umræddum lagaákvæðum er liðinn. Þá gerir fjármálaeftirlitið alvarlega athugasemd við að stjórn sjóðsins hafi ekki verið kunnugt um starfslokakjör framkvæmdastjóra sjóðsins. Telur Fjármálaeftirlitið það benda til að stjórnin hafi ekki hugað að ákvæðum fyrrgreindra laga um ábyrgð og eftirlitsskyldu stjórnar lífeyrissjóðs, sem kveða á um að stjórninni skuli á hverjum tíma vera kunnugt um ráðningarkjör framkvæmdastjóra sjóðsins.

Fjármálaeftirlitið beinir því til stjórnar sjóðsins að gerðar verði nauðsynlegar úrbætur sem tryggi að lögum sé fylgt við ákvarðanir og eftirlit með starfskjörum framkvæmdastjóra. Þá er því beint til stjórnar sjóðsins að innri endurskoðanda verði falið að fjalla um úrbætur sjóðsins.

Nýjar verklagsreglur

Eins og áður sagði hefur stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins þegar brugðist við þeim aðstæðum sem komu upp við starfslok fyrrum framkvæmdastjóra með því að setja skýrar verklagsreglur um ráðningu og starfskjör framkvæmdastjóra. Í nýju reglunum sem samþykktar voru á fundi stjórnar Sameinaða lífeyrissjóðsins þann 15. júní síðast liðinn segir meðal annars að stjórn skuli ráða framkvæmdastjóra, ákveða laun og starfskjör hans samkvæmt sérstöku erindisbréfi. Í reglunum er kveðið á um að færa skuli í fundargerð allt sem gerist á fundum stjórnar og sem lýtur að starfskjörum framkvæmdastjóra. Greiða þarf atkvæði í stjórn sjóðsins um allar breytingar sem gerðar eru á starfskjörum framkvæmdastjóra og ber að bóka niðurstöðuna. Í reglunum er sömuleiðis kveðið á um að gerður skuli sérstakur ráðningarsamningur við framkvæmdastjóra um starfskjör hans sem byggður skuli á ákvörðun stjórnar. Auk framkvæmdastjóra skulu allir stjórnarmenn árita samninginn. Loks er í hinum nýju verklagsreglum kveðið á um að formanni stjórnar á hverjum tíma beri að upplýsa nýja aðalmenn í stjórn um starfskjör framkvæmdastjóra og þær verklagsreglur sem gilda um starfskjör hans.