Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gert athugasemd við ummæli sem Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, lét falla í tölvupósti sem hann sendi á alla starfsmenn fyrirtækisins í mars síðastliðnum. Í tölvupóstinum fjallaði Birkir meðal annars um áhrif mikillar hækkunar flugeldsneytisverðs á afkomuspár Icelandair ehf., sem er dótturfélag Icelandair Group hf., sem er skráð á hlutabréfamarkað. Þar sem Birkir var fruminnherji í Icelandair Group telur FME að ummæli hans í tölvupóstinum séu brot á lögum um verðbréfaviðskipti. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef FME.

Hlutabréfin  lækkuðu

Málsatvik eru þau að þann 1. mars 2011 sendi Birkir tölvupóst á alla starfsmenn Icelandair ehf. þar sem hann fjallaði um áhrif mikillar lækkunar flugeldsneytis á afkomuspár Icelandair. Í tilkynningu FME segir að „upplýsingar um afkomuspár útgefanda og verulegar breytingar á þeim teljast líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninga útgefanda, sbr. 120. gr. vvl.  Síðar sama dag birtust ummæli Birkis í íslenskum fjölmiðlum. Veruleg lækkun, 3,6%, varð á hlutabréfum í Icelandair Group hf. í kjölfar útsendingar tölvupóstsins til lokun markaða þennan sama dag“.

Mælst til þess að Birkir vandi betur til orðavals

Icelandair Group bar ummæli Birkis til baka daginn eftir, þann 2. Mars, með tilkynningu til kauphallarinnar.Þar kom fram að Icelandair hefði ekki breytt afkomuspá sinni og að umfjöllun Birkis í tölvupóstinum hefði vísað til lækkunar á áætlaðri EBITDA fyrir árið 2011 frá rauntölum ársins á undan.  FME segir að eftirlitið hafi ekki getað fallist á þessar skýringar. Það taldi því hæfilegt að gera athugasemd við ummæli Birkis.

Í tilkynningu FME segir að eftirlitið mælist til þess við Birki „að hann vandi betur til orðavals og framsetningar upplýsinga er varða skráða útgefendur á skipulegum verðbréfamarkaði þar sem hann telst fruminnherji vegna stöðu sinnar“.