Fjármálaeftirlitið gerir athugasemd hjá Glitni við að almennt hafi verið of lítil áhersla lögð á að starfsmenn bankans kynntu sér og framfylgdu verklagsreglum. Jafnframt eru gerðar athugasemdir við skort á utanumhaldi kvartana og kerfisbundnu innra eftirliti með framkvæmd reglna á ákveðnum sviðum, segir í frétt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið framkvæmdi athugun á viðskiptaháttum í verðbréfaviðskiptum hjá Glitni 6. mars til 19. mars 2007.  Athugunin var afmörkuð við eignastýringu, einkabankaþjónustu, miðlun og eigin fjárfestingar, kínamúra og regluvörslu.

Varðandi Eignastýringu og Einkabankaþjónustu eru gerðar athugasemdir við tilvik þar sem skortur var á skriflegum samningum og skjalfestri fjárfestingastefnu auk frávika frá fjárfestingarstefnum tiltekinna eignasafna, segir í fréttinni.

Varðandi staðlaða samninga um verðbréfaviðskipti er bent á að þeir séu einhliða og því sé æskilegt að mælt sé skýrt fyrir um réttarsamband bankans og viðskiptamanna, þ.e. réttindi og skyldur hvors aðila.

Gerðar eru athugasemdir við staðsetningu greiningardeildar innan markaðsviðskiptasviðs m.t.t. reglna um kínamúra.

Gerðar eru athugasemdir við ónóga upplýsingaöflun og mat á þekkingu og reynslu viðskiptamanna áður en verðbréfaviðskipti eiga sér stað.  Jafnframt er bent á  mikilvægi þess að þeir sem annast ráðgjöf og sölu verðbréfa hafi ávallt forsendur til að stunda slíka ráðgjöf.

Gerðar eru athugasemdir við flesta þá þætti sem teknir voru til skoðunar og snúa að regluvörslu en úrbóta var þörf varðandi umgjörð og framkvæmd.

Rétt er að taka fram, segir í fréttinni, að Glitnir hefur upplýst Fjármálaeftirlitið um það, að síðan athugunin fór fram hafi verið gerðar ýmsar breytingar á starfsháttum bankans, sem miða að því að bæta úr þeim atriðum sem áfátt þóttu.  Undirbúningur sumra þeirra breytinga var þegar hafinn þegar úttektin fór fram en öðrum var ýtt úr vör í kjölfar athugasemda eftirlitsins.