Fjármálaeftirlitið hefur gert athugasemd þess efnis að Kauphöll Íslands hafi ekki tekið nógu snemma eftir viðskiptum tiltekinna fjármálafyrirtækja með eigin hlutabréf á árinu 2008. Kemur þetta fram í niðurstöðum athugunar FME á rafrænu eftirliti Kauphallarinnar, en ekki er tilgreint um hvað a fjármálafyrirtæki er að ræða.

Embætti sérstaks saksóknara hefur til rannsóknar mál tengd viðskiptum Kaupþings, Landsbankans og Glitnis með eigin bréf fyrir bankahrun. Meðal annars leikur grunur á að þau hafi falið í sér skipulega markaðsmisnotkun.

FME telur þó ekki að hægt sé að fullyrða að Kauphöllin hafi brotið gegn lögum um kauphallir. Meginábyrgð á eftirliti með verðbréfaviðskiptum á skipulegum mörkuðum liggi hjá FME, en ekki Kauphöllinni, þótt henni hafi verið falin tiltekin eftirlitsverkefni.

Í frétt Fréttablaðsins er haft eftir Páli Harðarsyni, forstjóra Kauphallarinnar, að hann taki athugasemdirnar mjög alvarlega. Hann telji hins vegar að sú greining sem ráðist hafi verið í eftir bankahrun hafi þegar skilað öflugra eftirliti. „Það verður að hafa í huga að eftirlit Kauphallarinnar var mjög virkt á þessum tíma. Frá ársbyrjun 2006 og fram að hruni sendum við 24 mál til FME. Þar af voru níu vegna gruns um markaðsmisnotkun.“