*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 14. október 2021 09:28

FME slær á putta Íslenska og EFÍA

Fjármálaeftirlitið hefur fundið að nokkrum atriðum sem varða útvistun á rekstri Íslenska lífeyrissjóðsins og EFÍA.

Haraldur Guðjónsson

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Ísland (FME) hefur gert athugasemdir við útvistun á rekstri Íslenska lífeyrissjóðsins og Eftirlaunasjóði FÍA (EFÍA). Meðal atriða sem FME setti út á var ófullnægjandi mat og upplýsingagjöf um hugsanlega hagsmunaárekstra vegna útvistunar á innri endurskoðun lífeyrissjóðanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá eftirlitinu.

Landsbankinn annast rekstur Íslenska lífeyrissjóðsins og Arion banki sér um rekstur og eignastýringu EFÍA. Fjármálaeftirlitið hóf vettvangsskoðun hjá sjóðunum í mars og apríl síðastliðnum með það að markmiði að kanna fyrirkomulag útvistunar og eftirliti sjóðanna með henni ásamt því að skoða hvernig eftirlit sjóðanna með rekstraráhættu hjá útvistunaraðila væri háttað.

Eftirlitið gerði athugasemdir við að sjóðirnir tveir hafi ekki með fullnægjandi hætti greint og metið hugsanlega hagsmunaárekstra vegna útvistunar á innri endurskoðun til rekstraraðila. Skriflegir verkferlar vegna tilkynninga á frávikum í rekstri upplýsingakerfa sjóðanna hafi ekki verið til staðar þegar athugunin fór fram en tekið er fram að EFÍA hafi brugðist við þeirri athugasemd. Þá taldi FME ekki samrýmast lögum um ársreikninga að framkvæmdastjórar sjóðanna sitji alla fundi endurskoðunarnefnda frá upphafi til enda.

Þá voru gerðar fjórar aðrar athugasemdir sem beindust að Íslenska lífeyrissjóðnum. Þar var nefnt skort á útvistunarstefnu, fundargerðir stjórnar hafi ekki verið nægilega ítarlegar og ekki hafi verið til staðar viðbúnaðarumgjörð til að bregðast við mögulegum áföllum upplýsingakerfa.