Verðbréfasvið Glitnis fór í úttekt hjá Fjármálaeftirlitinu. Þetta var reglubundið eftirlit en ekki eitthvað tilvik sem fékk Fjármálaeftirlitið til þess að leggja í þessa athugun, að sögn Írisar Bjarkar Hreinsdóttur, lögmanns hjá Fjármálaeftirlitinu.

“Það er ekki neitt eitt sem ræður því hvaða banka við förum í hverju sinni. Annars væri það ekki eins árangursríkt,” segir Íris Björk í samtali við Viðskiptablaðið. Hún segir eflaust eigi eftir að gera sambærilegar úttektir á hinum stóru viðskiptabönkunum  - og skoða aftur Glitni.

Einn stærsti þáttur í starfsemi Fjármálaeftirlitsins er að gera úttektir á bönkunum í heild og afmörkuðum þáttum í starfssemi þeirra.

Þessi athugun Fjármálaeftirlitsins var afmörkuð við eignastýringu, einkabankaþjónustu, miðlun og eigin fjárfestingar, kínamúra og regluvörslu

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að birta niðurstöður slíkra athugana í samræmi við nýjar reglur um gagnsæisstefnu.