Forstjóri Fjármálaeftirlitsins segir að úthlutun hlutabréfa til starfsmanna Landsbanka Íslands falli ekki undir reglur um kaupauka. Eftirlitið geri því ekki athugasemd við úthlutunina. Frá þessu er greint á ruv.is.

Tilkynnt var í vikunni hvernig úthlutun hlutabréfa að andvirði tæpra fimm milljarða króna til starfsmanna Landsbankans verður háttað. Úthlutunin byggir á samningi sem gerður var á milli íslenska ríkisins og kröfuhafa bankans í lok árs 2009. Kröfuhafarnir vildu að starfsmenn fengju hvata til að hámarka verðmæti skuldabréfs sem óvissa var um heimtur á. Úthlutun til starfsmanns með meðallaun í fullu starfi er rúm ein og hálf milljón eftir að skattar og launatengd gjöld hafa verið dregin frá.

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir í samtali við RÚV að eftirlitið geri ekki athugasemdir við þennan gjörning. Hún segir eftirlitið hafa metið það svo að úthlutun þessara hlutabréfa falli ekki formlega undir kaupaukareglurnar. En hvers vegna? „Vegna þess að gildissvið reglnanna er þannig að það tekur til kaupaukakerfa hjá fjármálafyrirtækjum. Hér er um að ræða að gamli bankinn sem er ekki lifandi fjármálafyrirtæki er að greiða samkvæmt samningi sem gerður var við íslenska ríkið frá því löngu fyrir gildistöku kaupaukareglnanna,“ segir Unnur.