Fjármálaeftirlitið (FME) undirritaði á sunnudag samstarfssamning við fjármálaeftirlitið í Dubai (DFSA). Samningurinn tekur almennt til samstarfs um eftirlit og upplýsingaskipti á milli eftirlitsstofnananna segir í frétt FME.

Forstjóri FME, Jónas Fr. Jónsson segir samning FME við fjármálaeftirlitið í Dubai endurspegla vel alþjóðavæðingu íslenska fjármálageirans. ,,FME undirritaði nýlega samstarfssamninga við systurstofnanir sínar í Kína og á Mön. Sú staðreynd að íslensk fjármálafyrirtæki horfa í vaxandi mæli til markaða utan EES-svæðisins gerir auknar kröfur til FME varðandi alþjóðlegt samstarf og samvinnu við erlendar eftirlitsstofnanir. Þessi þróun hefur verið felld inní stefnumótun FME og hennar gætir sífellt meira í daglegum störfum stofnunarinnar. Sem stendur erum við að vinna að fimm sambærilegum samningum við eftirlitsstofnanir utan EES svæðisins," segir Jónas í frétt FME.