Fjármálaeftirlitið greip inn í rekstur Kaupþings í nótt. Það var gert til að tryggja áframhaldandi viðskipabankastarfsemi á Íslandi. Frá þessu er greint á vef FME. Þar með hefur ríkið tekið yfir alla stóru bankana þrjá.

FME fór inn í bankann á grundvelli heimilda Alþingis sem samþykktar voru með neyðarlögum á mánudagskvöld.

"Eins og ríkisstjórnin hefur lýst yfir eru innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi tryggðar að fullu. Útibú bankans á Íslandi, þjónustuver, hraðbankar og netbankar eru opnir. Stefnt er að því að viðskiptavinir finni sem minnst fyrir breytingum," segir á vef FME.

Skilanefnd tekur við af stjórn Kaupþings

Þar er enn fremur upplýst að skilanefnd hafi tekið við öllum heimildum stjórnar Kaupþings. Í skilanefndinni eru: Finnur Sveinbjörnsson hagfræðingur, Knútur Þórhallsson, löggiltur endurskoðandi, Bjarki H. Diego, hrl., Guðný Arna Sveinsdóttir viðskiptafræðingur og Steinar Þór Guðgeirsson hrl.

Lífeyrissjóðir í hópi stærstu eigenda

Exista er stærsti hluthafinn í Kaupþingi með tæplega 25 % hlut. Í hópi annarra stórra hluthafa eru lífeyrissjóðir: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með um 3,3 % hlut, Lífeyrissjóður verslunarmanna með um 3,2 % hlut og Gildi lífeyrissjóður með um 2,9% hlut.