Fjármálaeftirlitið tók í dag ákvörðun um hækkun sveiflujöfnunarauka í samræmi við tilmæli fjármálastöðugleikaráðs frá 19. desember 2018. Þetta kemur fram á vef eftirlitsins .

Sveiflujöfnunaraukinn er sá eiginfjárauki sem fjármálakerfið verður að hafa yfir að ráða sem eigið fé og ganga megi á verði hagkerfið fyrir áföllum til að hægt sé að jafna sveifluna líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá .

Bætist hann ofan á reglur um eiginfjárkröfur bankanna, en hann á að veita fjármálafyrirtækjum aukið svigrúm til útlána í fjármálaniðursveiflu, en til þess á að byggja upp sveiflujöfnunaraukann við hagfelldar aðstæður. Það er þegar saman fer uppsveifla fjármála- og hagsveiflunnar. Þá verður hægt að losa hann að hluta eða að fullu við fjármálaniðursveiflu.

„Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins felur í sér að sveiflujöfnunaraukinn hækkar úr 1,75% í 2% á innlendar áhættuskuldbindingar allra fjármálafyrirtækja, bæði hvers fyrir sig og á samstæðugrunni, nema þeirra sem eru undanskilin aukanum samkvæmt 4. mgr. 86. gr. d laga um fjármálafyrirtæki, og mun ákvörðunin taka gildi eftir 12 mánuði," segir í tilkynningunni.

„Við útreikning eigin fjár sem viðhalda skal ber að líta til vegins meðaltals sveiflujöfnunarauka hér á landi og í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, í samræmi við hlutdeild áhættuskuldbindinga í hlutaðeigandi ríkjum, sbr. 3. mgr. 86. gr. d sömu laga."