„Það hefur ekki komið sérstaklega til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu hvort myndast hafi yfirtökuskylda hjá Eimskipafélaginu,“ segir Íris Björk Hreinsdóttir, talsmaður Fjármálaeftirlitsins, í samtali við Viðskiptablaðið.

Spurning þess efnis vaknar í kjölfar orðróms um að stærsti einstaki hluthafi Eimskipafélagsins, Frontline Holding S.A. (með 33,18% hlut) sem er í eigu Magnúsar Þorsteinssonar, sé ekki lengur undir hans stjórn heldur Landsbankans.

Magnús sagði sig úr stjórn félagsins í lok desember á síðasta ári. Skömmu síðar sagði hann einnig af sér stjórnarformennsku í Icelandic Group.

Fjárfestingarfélagið Grettir, sem er undir stjórn Björgólfs Guðmundssonar, er næststærsti hluthafi Eimskipafélagsins með 33,15% hlut, auk þess sem félög merkt Landsbankanum eru einnig fyrirferðarmikil.

Í mars voru gerðar talsverðar breytingar á stjórn Eimskipafélagsins. Athygli vekur að enginn stjórnarmanna, eða félag í þeirra eigu, er á lista yfir 20 stærstu hluthafa og menn tengdir Björgólfsfeðgum skipa flest sætin.