„Það er undantekning að það er bara eitt brot í hverju máli sem fór héðan,“ segir Sigurveig Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Fjármálaeftirlitinu (FME). Hún og Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME, gáfu í dag grein fyrir þeim rannsóknum sem hafi verið í gangi hjá eftirlitinu.

Á fundi FME sem enn stendur yfir hefur komið fram að eftirlitið hefur lokið rannsókn á 205 mlálum sem tengjast bankahruninu með einum eða öðrum hætti. Þar af hafa 66 mál tengd aðdraganda hrunsins verið send efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra eða embættis sérstaks saksóknara. Jafnframt hefur 37 málum þar sem um er að ræða meint brot á almennum hegningarlögum verið vísað til embættis sérstaks saksóknara. Samtals eru þau mál 103.

Umfangsmestu málin tengjast meintri markaðsmisnotkun og umboðssvikum. Þá hafa brot sem varða stórar áhættuskuldbindingar verið mjög umfangsmikil í rannsóknum FME.

Dæmi um skiptingu brota og fjöldi þeirra:

  • Umboðssvik - 47
  • Innherjasvik - 22
  • Markaðsmisnotkun - 18
  • Önnur brot á lögum um fjármálafyrirtæki - 9
  • Stórar áhættur - 6
  • Lög um skyldutryggingu lífeyrissjóða - 6
  • Önnur brot á lögum um verðbréfaviðskipti - 3
  • Lög um verðbréfasjóði - 3
  • Lög um vátryggingafélög - 2