Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt umsókn Straums Fjárfestingarbanka hf. um kaup á virkum eignarhlut í Íslandsbanka hf. með skilyrðum þó. Með tilliti til hættu á hagsmunaárekstum á lána- og vátryggingamarkaði gerir Fjármálaeftirlitið það að skilyrði að Straumur tilnefni til setu í stjórnum Íslandsbanka hf. og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. í skjóli síns atkvæðisréttar einstaklinga sem séu óháðir Straumi, eða aðilum tengdum Straumi.

Fjármálaeftirlitið gerir það að skilyrði að eftirlitinu verði gerð fyrirfram grein fyrir því hvernig Straumur hyggist beita atkvæðisrétti sínum í Íslandsbanka hf. og Tryggingamiðstöðinni hf. í stjórnarkjöri.

Með tilliti til hagsmunaárekstra á lánamarkaði gerir Fjármálaeftirlitið það að skilyrði að komi til þess að Straumur geri samkomulag, formlegt eða óformlegt, um samstarf við annan aðila um meðferð eignarhluta í Íslandsbanka hf., muni bankinn upplýsa Fjármálaeftirlitið um slíkt samkomulag og gera hugsanlegt samkomulag um samvinnu eða samstarf með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið gerir það jafnframt að skilyrði að Straumur skuldbindi sig til þess að gera eftirlitinu grein fyrir því fyrir fram hyggist bankinn hafa frumkvæði að því, einn og sér eða í samstarfi við aðra aðila, að boða til hluthafafundar í Íslandsbanka hf.

Með tilliti til hættu á hagsmunaárekstrum á vátryggingamarkaði telur Fjármálaeftirlitið að Straumur geti ekki verið til lengri tíma virkur eigandi, beint og óbeint, í bæði Tryggingamiðstöðinni hf. og Íslandsbanka hf. og dótturfélögum bankans.

Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins tekur ennfremur mið af heimildum þess til viðvarandi eftirlits, skv. VI. kafla laga nr. 161/2002, m.a. heimildum til að setja aukin skilyrði fyrir meðferð eignarhlutarins í ljósi frekari reynslu.